Massa: Ætlum að draga Red Bull uppi

Felipe Massa á ferð á Williamsbílnum.
Felipe Massa á ferð á Williamsbílnum. mbl.is/afp

Felipe Massa er á því að Williamsliðið eigi góða möguleika á að komast upp fyrir Red Bull í keppni bílsmiða í ár og ljúka vertíðinni í öðru sæti, á eftir  Mercedes.

Massa komst í fyrsta sinn á verðlaunapall í Monza fyrir tæpum hálfum mánuði en þar komst Williams upp í þriðja sæti í keppni bílsmiða, tók fram úr Ferrari á heimavelli ítalska liðsins og er nú með 15 stiga forskot á það.

Williams er sem stendur 95 stigum á eftir Red Bull og þótt hann játi því að þar sé um stórt bil að ræða heldur hann enn að möguleiki á því sé fyrir hendi.

„Markmiðið er að saxa á forskotið í hverju einasta móti, og maður veit aldrei hvað getur gerst. Allt getur breyst og það mjög snögglega í formúlu-1, í tveimur eða þremur mótum,“ segir Massa við fréttastofuna Reuters.

„Við erum að standa okkur vel í ár og enn má bæta heilmargt á seinni helmingi vertíðarinnar og einnig á þeirri næstu,“ bætir hann við. Massa segir að brautin í Singapúr henti Williamsbílnum tæplega mjög vel en engu að síður vonast hann til að keppa um pallsæti, eins og í Monza.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert