Aftur uppstokkun hjá Ferrari

Í annað sinn á árinu hefur verið stokkað upp í …
Í annað sinn á árinu hefur verið stokkað upp í starfseminni hjá Ferrari í Maranello. mbl.is/afp

Ferrari hefur gripið til enn einnar uppstokkunar í liðsröðum sínum. Nú hafa tæknistjórinn Pat Fry og aðalhönnuðurinn Nikolas Tombazis verið látnir taka pokann.

Það er hinn nýi liðsstjóri Maurizio Arrivabene, sá þriðji á árinu, sem gripið hefur til víðtækra ráðstafana í þeim tilgangi að reyna gera Ferrariliðið samkeppnisfært á ný eftir afleita vertíð í ár.

Tombazis hafði verið aðalhönnuður Ferrari frá 2006 en Fry kom til liðsins frá McLaren 2010 og hefur allar götur síðan verið meðal helstu tækniforsprakka Ferrari.

Við tæknistjórahlutverkinu að öllu leyti hefur tekið James Allison en við hlið hans munu starfa nýr yfirhönnuður, Simone Resta, og yfirmaður vélasmíði Ferrari, Mattia Binotto.

Það sem af er ári hefur Ferrari fengið nýjan forstjóra í Sergio Marchionne í stað Luca di Montezemolo. Arrivabene tók fyrir skömmu við liðsstjórahlutverkinu af Marco Mattiacci, sem látinn var víkja eftir aðeins átta mánuði við stjórnvölinn. Hann leysti sl. vor af hólmi Stefano Domenicali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert