Vettel ánægður með frumraunina

Sebastian Vettel á ferð í gær, á seinni akstursdegi sínum …
Sebastian Vettel á ferð í gær, á seinni akstursdegi sínum við bílprófanir í Jerez. mbl.is/afp

Sebastian Vettel sagði byrjun sína hjá Ferrari vera jákvæða eftir tveggja daga bílprófanir hans í Jerez á Spáni. Ók hann hraðast báða dagana.

„Ég held þetta hafi verið góð byrjun, góður dagur,“ sagði Vettel eftir fyrri daginn þar sem hann var tveimur sekúndubrotum á undan næsta manni og það þrátt fyrir að vera á meðalhörðum dekkjum gegn mjúkum.

„Það er margt sem er frábrugðið [því sem var hjá Red Bull], svo sem fyrirkomulagi á stýrishjóli og hjólið sjálft. Á endanum gera hnapparnir það sama en maður þarf að venjast breytingunum sem tekur tíma.

Vitaskuld virkar bíllinn öðruvísi líka, að baki honum er önnur hugmyndafræði og það er annar hópur sem smíðar hann. Ég gat notað tímann í vetur til að ganga úr skugga um að mér liði vel í bílnum og gæti einbeitt mér að honum,“ sagði Vettel.

Hann bætir við að margt megi bæta og eftir æfingarnar fyrstu tvo dagana væri ljóst að bíll Mercedes væri sá er allt miðaðist við. Bíll heimsmeistaranna væri og greinilega endingartraustur miðað við alla þá vegalengd sem liðið hefði lagt að baki. „Vonandi verða þeir ekki jafn hraðskreiðir og í fyrra en það verður að hrósa þeim, því þeir hafa gert góða hluti og það kæmi á óvart yrðu þeir ekki öflugir í ár eins og í fyrra,“ sagði Vettel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert