Hamilton ók hraðast

Lewis Hamilton í Barcelona í dag.
Lewis Hamilton í Barcelona í dag. mbl.is/afp

Lewis Hamilton sá til þess að Mercedesbíll sat í toppsæti lista yfir hröðustu hringi við reynsluakstur formúluliðanna í Barcelona í gær.

Hamilton prófaði mýkri dekkjagerðina undir lok æfingarinnar og var ekki að sökum að spyrja, 1:23,022 sýndi skeiðklukkan. Var það  aðeins 0,3 sekúndum frá besta tíma vetrarins, 1:22,729mín., sem félagi hans Nico Rosberg setti í gær.

Tvo næstbestu hringina áttu þeir Felipe Massa hjá Williams og Kimi Räikkönen hjá Ferrari sem báðir líktu eftir kappakstri í dag. Besti tími Massa var 1:23,262 mín. og Räikkönens 1:23,276 mín.

Fjórða besta tímann átti nýliðinn Carlos Sainz hjá Toro Rosso og þann fimmta besta Romain Grosjean hjá Lotus en hann varði morgninum í að æfa þjónustustopp og prófa mismunandi uppsetningar bílsins.

Nico Hülkenberg hjá Force India ók manna mest í dag, eða 158 hringi sem er tvöföld keppnislengd. Räikkönen ók 136 hringi og Sainz 132.

Daninn Kevin Magnussen ók í fyrsta sinn nýja McLarenbílnum, leysti af hólmi Fernando Alonso sem hvílir þessa helgina í framhaldi af hörðum skell á öryggisvegg síðastliðinn sunnudag. Magnussen setti besta tíma McLaren til þessa - 1:25,225 mín., þótt ekki hafi hann setið undir stýri formúlubíls frá lokamótinu í Abu Dhabi í fyrra. Varð hann þó að hætta akstri vegna olíuleka eftir aðeins 39 hringi.

Lewis Hamilton sinnir aðdáendum í Barcelona í dag.
Lewis Hamilton sinnir aðdáendum í Barcelona í dag. mbl.is/epa
Lewis Hamilton á fleygiferð á Mercedesbílnum í Barcelona í dag.
Lewis Hamilton á fleygiferð á Mercedesbílnum í Barcelona í dag. mbl.is/epa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert