Afneitar Hamilton

Tæpast þarf Räikkönen (t.v.) að víkja fyrir Lewis Hamilton (t.h.).
Tæpast þarf Räikkönen (t.v.) að víkja fyrir Lewis Hamilton (t.h.). mbl.is/afp

Maurizio Arrivabene liðsstjóri Ferrari vísar á bug orðrómi þess efnis að Lewis Hamilton sé á förum til ítalska liðsins.

Arrivabene segir Ferrari þegar með „þungavigtarökumann“ í Sebastian Vettel.

Hamilton er á síðasta ári þriggja ára samnings hjá Mercedes og þrátt fyrir ítrekaðar fregnir um að hann væri við það að skrifa upp á framlengingu - slíkar fréttir hafa verið tíðar frá því í vetur - hefur undirskriftarpenninn ekki enn verið mundaður.

Af þeim sökum hefur orðrómur styrkst að undanförnu þess efnis að Hamilton kynni að vera á leið til Ferrari.

Arrivabene segist heldur myndu kjósa ungan og upprennandi ökumann til að keppa við hlið Vettels þegar sæti losnar í liði hans.

„Hvers vegna þarf ég Hamilton þegar ég er með þungavigtarmann  sem Vettel?“ spyr Arrivabene í samtali við þýska blaðið Bild. „Ég vildi frekar sjá ungan og efnilegan ökumann verða liðsfélagi Sebastians,“ segir hann.

Núverandi liðsfélagi Vettels, Kimi Räikkönen, á valmöguleika í sínum samningi sem gæti orðið til þess að hann keppi fyrir Ferrari á næsta ári, 2016. „Haldi hann áfram að standa sig vel munum við framlengja við hann,“ segir Arrivabene um ágætan árangur Räikkönens að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert