Williams vill pallsæti reglulega

Brautin í Spa ætti að henta Williamsbílnum einkar vel. Hér …
Brautin í Spa ætti að henta Williamsbílnum einkar vel. Hér er Valtteri Bottas á ferð í ungverska kappakstrinum. mbl.is/afp

Williamsliðið gerir þær kröfur til ökumanna sinna, að þeir komist reglulega á verðlaunapall í mótunum á seinni helmingi keppnistíðarinnar.

Rob Smedley, einn af yfirmönnum Williams, segir að í hönd fari mót þar sem brautareiginleikar Williamsbílsins ættu að njóta sín betur en til þessa.

Williams hefur aðeins tvisvar átt mann á palli í mótunum 10 sem lokið er í ár. Valtteri Bottas varð þriðji í kanadíska kappakstrinum í Montreal og Felipe Massa náði sama sæti í Spielberg í Austurríki.

„Brautin í Spa ætti að henta bílnum og það verðum við að notfæra okkur. Vegna veðurfarsaðstæðna verðum við að vera undirbúnir allar hugsanlegar kringumstæður. Við höfum verið að vinna mikla heimavinnu á þessu sviði og stöndum vel að vígi,“ segir Smedley í aðdraganda kappakstursins í Spa.

Williamsliðið er í þriðja sæti í stigakeppni liðanna, 85 stigum á eftir Ferrari sem er í öðru sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert