Räikkönen tekur á sig sök

Bíl Kimi Räikkonën ýtt inn í bílskúr Ferrari í Austin …
Bíl Kimi Räikkonën ýtt inn í bílskúr Ferrari í Austin er hann neyddist til að hætta keppni. mbl.is/afp

Kimi Räikkönen hjá Ferrari segist taka það alfarið á sig að hann flaug út úr brautinni í Austin og keyrði á öryggisvegg, en það varð til þess að hann varð að hætta keppni vegna skemmda á bílnum.

„Fyrsta lota kappakstursins var meira og minna í lagi, bíllinn virkaði alltaf mjög vel. Ég hafði hraða  og gat barist við aðra ökumenn.

Eftir dekkjaskipti urðu mér á mistök, ég knúði bílinn um of, afturendinn losnaði upp og ég fór því útaf,“ sagði Räikkönen.

Við höggið á öryggisvegg skemmdist bremsubúnaður hægra megin að framan með þeim afleiðingum að bremsur ofhitnuðu og var kappakstrinum þá sjálfhætt.

Eftir að hafa lent á veggnum tókst Räikkönen að losa bílinn og komast heim í bílskúr þar sem skipt var um framvæng og dekk. Eftir það virkaði bíllinn vel, segir Räikkönen, en ekkert varð við bremsubiluninni gert og var hann því kallaður inn í bílskúr og kappakstrinum hætt.

„Það er ekkert gaman að falla úr leik með þessum hætti. Til að ná góðum árangri - og við höfum tækin og tól til þess - má maður engin mistök gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert