Ætti að skipta yfir á Hondavélar

Breski heimsmeistarinn fyrrverandi, Damon Hill, fylgdist með bílprófunum í Jerez …
Breski heimsmeistarinn fyrrverandi, Damon Hill, fylgdist með bílprófunum í Jerez fyrir tveimur árum, 2014. mbl.is/afp

Heimsmeistarinn frá 1996, Damon Hill, er á því að gamla lið hans, Williams, þurfi að segja sig úr viðjum við Mercedes ætli það sér að keppa aftur um mótssigra og titla í formúlu-1.

Mercedes hefur séð Williams fyrir vélum en þær eru ársgamlar og því ekki eins öflugar og keppnisbílar Mercedes njóta hverju sinni.

Williams hefur aðeins unnið einn mótssigur undanfarin 11 ár, þökk sé Pastor Maldonado í Spánarkappakstrinum í Barcelona 2012. Liðið stökk hins vegar úr níunda sæti í keppni bílsmiða 2013 í þriðja sætið 2014 og hélt því aftur í fyrra, 2015.

Hill er á því að betri árangur og meiri afrek séu því aðeins möguleg að Williams gangi til liðs við annan vélaframleiðanda. Mælir hann sérstaklega með Honda í því sambandi.

„Ég stakk eiginlega upp á því við [aðstoðarliðsstjórann] Claire [Williams] í fyrra að það myndi ætíð verða liðinu fjötur um fót að vera með vélarnar frá Mercedes. „Herfræðilega séð held ég liðið væri betur sett hjá öðrum vélarframleiðanda og ég held eini valkosturinn sem ræða ber sé Honda.

Ég hefði viljað sjá Williams ganga til liðs við Honda, ég held Honda muni komast aftur í toppslaginn. Árið í fyrra var hörmung fyrir þá en þeir lærðu margt á vertíðinni. Vel má vera að ég hafi rangt fyrir mér,“ segir Hill í samtali við íþróttastöð Sky-sjónvarpsins.

Síðasta bílsmiðatitil sinn vann Williams árið 1997. Jacques Villeneuve varð heimsmeistari ökumanna og með liðsstyrk frá félaga sínum Heinz-Harald Frentzen færðu þeir liðinu titil bílsmiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert