Vettel klárar veturinn fljótastur

Sebastian Vettel á ferð í Barcelona í dag.
Sebastian Vettel á ferð í Barcelona í dag. mbl.is/afp

Sebastian Vettel setti besta brautartímann á lokadegi vetraræfinga formúluliðanna í Barcelona í dag. Þar með ók Ferrarifákurinn hraðast allra bíla fimm æfingadaga af átta.

Vettel ók hringinn í dag á 1:22,852 mínútum en liðsfélagi hans Kimi Räikkönen fór hraðar í gær, náði 1:22,765 mín. Vettel átti besta tímann í síðustu viku, 1:22,810 mín. 

Carlos Sainz á Toro Rosso átti næstbesta tímann, 1:23,134 mín., eða 0,3 sekúndum frá tíma Vettels. Þriðja besta hringinn átti svo Felipe Massa hjá Williams á 1:23,664 mín.

Þrátt fyrir bilun sem kom í veg fyrir akstur lengst af eftir hádegi setti Sergio Perez á  Force India fjórða besta tímann.

Sem fyrr skiptu þeir Lewis Hamilton (1:24,133) og Nico Rosberg (1:26,140) hjá Mercedes deginum á milli sín. Varð Hamilton að lokum í fimmta sæti á lista yfir hröðustu hringi dagsins en Rosberg í þrettánda og síðasta sæti. Óku þeir undantekningarlítið í löngum lotum með meðalhörðð dekk undir, ólíkt öðrum sem setu bestu tíma sína á mjög mjúkum og ofurmjúkum dekkjum. 

Daniel Ricciardo hjá Red Bull (1:24,427) setti sjötta besta tímann, rétt á undan Jenson Button hjá McLaren (1:24,714) og Jolyon Palmer hjá Renault (1:24,859). Tveimur tíundu þar á eftir varð Marcus Ericsson hjá Sauber (1:25,031).

Romain Grosjean (1:25,255) og Esteban Gutierrez (1:25,422) hjá Haas skiptu deginum á milli sín. Sá fyrrnefndi lagði vandræðalaust kappaksturslengd að baki um morguninn. Gutierrez náði aðeins að aka 24 hringi fyrstu tvo dagana en vegna þess hversu allt gekk liðugt fyrir sig hjá Grosjean í morgun fékk hann annað tækifæri í dag. Kláraði hann 25 hringi í dag.

Formúluliðin pakka nú hafurstask sitt saman og fljúga til Melbourne í Ástralíu þar sem fyrsta keppnishelgi ársins fer fram, 18. til 20. mars nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert