Krefst þess að Ferrari sigri senn

Ferrarimenn verða að sleikja sárin því það er Mercedes sem …
Ferrarimenn verða að sleikja sárin því það er Mercedes sem hrósað hefur sigri í öllum þremur fyrstu mótum ársins. Hér fagnar Rosberg sigri í Sjanghæ en Vettel varð annar. mbl.is/afp

Æðsti yfirmaður Fiat og Ferrariliðsins, Sergio Marchionne, var óhress með frammistöðuna í Kína um helgina og skaut viðvörunarskotum að mannskapnum. Heimtar hann sigur á Mercedes sem allra fyrst.

Marchionne sagði að „klukkan gengi“, þ.e. að tíminn sem hann gefur liðinu til að vinna mótssigur minnkar ört.  

Ljóst þykir að minni munur sé á liðunum í ár en í fyrra en engu að síður hefur Mercedes unnið fyrstu þrjú mót ársins af öryggi og talsverðum yfirburðum. Hið sama gildir um tímatöku mótanna.

Hefur upphaf tímabilsins verið Ferrari erfitt vegna endingarskorts bílanna. Er þetta farið að fara í taugarnar á Fiatstjóranum.

„Það sem hefði getað gerst gerðist því miður ekki - við unnum ekki sigur - og úr þessu verðum við að bæta,“ sagði Marchionne við bresku sjónvarpsstöðina Sky eftir kappaksturinn. „Liðið veit að tíminn er að renna hægt og bítandi út og við verðum að fara að vinna nokkur mót“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert