Red Bull fær áfram Renaultvélar

Daniel Ricciardo vann ráspólinn á Red Bull með Renaultvél í …
Daniel Ricciardo vann ráspólinn á Red Bull með Renaultvél í skottinu í tímatökunni í Mónakó. AFP

Renault hefur staðfest að það muni halda áfram að láta Red Bull liðinu í té vélar í keppnisbíla  sína og það að minnsta kosti út árið 2018. Þá mun Toro Rosso snúa aftur til Renault á næsta ári, eftir eins kaup á vélum frá Ferrari.

Red Bull hefur brúkað Renaultvélar frá ársbyrjun 2007, en minnstu munaði að upp úr slitnaði í fyrra, fyrsta árs V6-véla, vegna ónógrar afkastagetu mótoranna.

Í önnur hús hafði hins vegar Red Bull ekki að venda eftir að hafa farið bónleiðir til búðar hjá bæði Mercedes og Ferrari. Gagnrýni liðsmanna á vélar Renault gekk það langt að franski bílsmiðurinn sleit nánast sambandinu við Red Bull. Á endanum sá hann þó aumur á liðinu og féllst á að leggja því til vélar sem nefndar yrðu eftir TAG Heuer, einu helsta styrktarfyrirtæki liðsins.

Nú eru samskipti Renault  og Red Bull hins vegar á allt öðrum nótum, þökk sé miklum framförum frönsku aflrásarinnar. Bæði Red Bull og Toro Rosso munu fá nýjustu útgáfu Renaultvélarinnar og verður báðum frjálst að kenna þær við hvort heldur er við uppruna sinn eða eftir einhverjum styrktarfyrirtækjum.

„Að eiga öflug keppnislið að samstarfsaðilum er til marks um traust á hinum betrumbættu vélum og starfsemi okkar allri,“ segir Jerome Stoll, yfirmaður Renault Sport Racing.

Red Bullstjórinn Christian Horner segir að framfarir Renaultvélarinnar það sem af er 2016 hafi sannfært liðið um skynsemi þess að framlengja samstarfið við Renault.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert