Vettel neitaði að stoppa

Sebastian Vettel fagnar öðru sætinu í Bakú með liðsfélögum sínum …
Sebastian Vettel fagnar öðru sætinu í Bakú með liðsfélögum sínum að keppni nýlokinni. AFP

Sebastian Vettel neitaði að verða við fyrirmælum stjórnenda Ferrari þegar þeir lögðu að honum að koma inn að bílskúr til dekkjaskipta snemma í kappakstrinum í Bakú.

Vettel taldi betra að halda áfram akstri enda virkni góð í dekkjunum og þau ekkert farin að gera eftir þegar kallið kom.

Hann hóf keppni í þriðja sæti en komst fljótt fram úr Daniel Ricciardo hjá Red Bull sem hóf keppni í öðru sæti og stoppaði snemma ásamt liðsfélaga sínum Max Verstappen hjá Red Bull. Slitnuðu dekk þeirra hratt og hugðust stjórnendur Ferrari koma í veg fyrir hið sama hjá Vettel og komast hjá því að Ricciardo næði aftur öðru sætinu með nýjum dekkjum undir bílnum.

"Eruð þið vissir í ykkar sök? Bíllinn virkar mjög vel," svaraði Vettel er kallið kom. Liðsfélagi hans Kimi Räikkönen stoppaði til dekkjaskipta eftir níu hringi en Vettel beið þess fram á 21. hring af 51.

Eftir kappaksturinn sagði Vettel: "Í raun var ég kallaður inn. Við vildum bregðast við stoppi Daniels sem átti í basli með dekkin; eftir að ég tók fram úr honum ákvað hann að stoppa. En mér fannst allt í lagi með bílinn, hraðinn var góður og ég bað liðið að leyfa mér að halda áfram. Ég óttaðist að seinni hlutinn yrði afar langur. Á endanum held ég að það hefði ekki skipt miklu máli hvort ég hefðu stoppað fyrr".

Vettel tapaði sæti sínu til Räikkönen er hann stoppaði en finnski ökuþórinn vék fyrir honum og endurheimti Vettel annað sætið með því. "Ég tapaði sætinu til Kimi en við spiluðum vel sem lið og ákváðum að nýta meiri hraða ferskari dekkjanna til að tryggja okkur annað sætið í kappakstrinum," bætti Vettel við.

Räikkönen missti Sergio Perez hjá Force India fram úr sér á lokahringnum. Hann hefði tapað þriðja sætinu til hans hvort sem var vegna akstursvítis sem fólst í því að fimm sekúndum var bætt við lokatíma hans.

Sebastian Vettel á ferð í Bakú.
Sebastian Vettel á ferð í Bakú. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert