Rosberg refsað

Nico Rosberg ánægður að hafa komist alla leið í Silverstone.
Nico Rosberg ánægður að hafa komist alla leið í Silverstone. AFP

Nico Rosberg hefur verið refsað fyrir að fá ráð við gírkassabilun í gegnum talstöðina frá tæknimönnum Mercedesliðsins meðan á keppni í Silverstone stóð.

Löngu eftir að kappakstrinum lauk bættu dómarar mótsins 10 sekúndum við aksturstíma Rosberg sem hafði í för með sér að hann féll úr öðru sæti í úrslitum mótsins í það þriðja. Færist Max Verstappen hjá Red Bull úr því þriðja í annað sætið.

Fyrir  bragðið munar nú einungis einu stigi á þeim Lewis Hamilton í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

Það var ekki talið brot á reglum um talstöðvarsamskipti ökumanns við stjórnborð liðs að ráðleggja Rosberg að skipta um ham gírkassans eftir að bilun kom upp í honum á lokahringjunum í Silverstone.

Það sem réði hins vegar úrslitum um refsinguna, var að það þótti mega túlka sem ráðgjöf um akstur að honum var ráðlegt að brúka ekki sjöunda gírinn eftir þetta. Í því þótti fólgin hjálp sem hafði áhrif á getu hans í kappakstrinum.

Rosberg játti því sjálfur strax eftir keppni að gírkassinn hefði að öllum líkindum hrunið og hann fallið úr leik hafi ekki komið til þeirra ráða sem hann fékk gegnum talstöðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert