Rosberg á ráspól í Búdapest

Nico Rosberg undirbýr sig fyrir tímatökuna í Búdapest í dag.
Nico Rosberg undirbýr sig fyrir tímatökuna í Búdapest í dag. AFP

Þýski ökuþórinn Nico Rosberg sem ekur fyrir Mercedes verður á ráspól í Formúlu 1 kappakstrinum á Hung­ar­or­ing-braut­inni í Búdapest í Ungverjalandi á morgun. Rosberg náði besta tímanum í tímatökunni í dag á síðasta hring og skaut þar með félaga sínum hjá Mercedes-liðinu, breska ökuþórnum Lewis Hamilton, ref fyrir rass. 

Lokaandartök tímatökunnar voru dramatísk en bíll Fernando Alonso, ökumanns Ferrari, snerist á brautinni í lokahringnum sem varð til þess að Lewis Hamilton sem var með besta tímann þurfti að hægja á sér. Nico Rosberg var hins vegar framar í brautinni og náði að bæta tíma Hamilton á síðustu stundu. Ástralski ökuþórinn Daniel Ricciardo og Belginn Max Verstappen, liðsmenn Red Bull, verða svo í þriðja og fjórða sæti þegar kappaksturinn hefst á morgun.

Aðstæður voru erfiðar í tímatökunnni í dag og þurfti að stöðva tímatökuna fjórum sinnum vegna þess. Svíinn Magnus Ericsson sem ekur fyrir Sauber og Brasilíumaðurinn Felipe Massa í Williams-liðinu lentu utan brautar og í smávægilegum árekstri, en hvorugum varð þó meint af eftir óhöppin.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert