Fékk bíl í höfuðið

Bíll Rossi lendir á bíl Castroneves og til hægri er …
Bíll Rossi lendir á bíl Castroneves og til hægri er Kimball.

Brasilíski kappakstursmaðurinn Helio Castroneves var hreint ótrúlega heppinn að slasast ekki er kappakstursbíll tókst á loft og lenti ofan á hans bíl, rétt við höfuðhjálm hans.

Atvikið átti sér stað í þjónustustoppi í IndyCar-kappakstri í Pocono í Bandaríkjunum er Castroneves dróst saklaus inn í árekstur ökumannanna Charlie Kimball og Alexander Rossi. 

Hann hafði nýlokið stoppinu og var á útleið frá bílskúr sínum er Rossi og Kimbal skullu saman með þeirri afleiðingu að bíll þess fyrrnefnda tókst á loft og lenti ofan á bíl Castroneves. Ekki hefði hann þurft nema lenda nokkrum sentímetrum innar á bílinn til að hörmulegt slys hefði getað hlotist haf. Slóst vinstra framdekk Rossi utan í höfuðhjálm Castroneves en hann slapp þó til allrar hamingju einstaklega vel. 

„IndyCar liðin hafa lagt svo hart að sér að bæta öryggi og ágæti þess sannaðist í dag. Ég mun taka nokkrar verkjapillur og eftir það verður allt í lagi með mig,“ sagði brasilíski ökumaðurinn eftir óhappið.

Atvikið á sér stað á sama tíma og tekist er á um það í formúlu-1 hvort auka skuli höfuðvarnir ökumanna með sérstökum hjálmgrindum umhverfis og yfir stjórnklefanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert