Massa segir skilið við formúluna

Felipe Massa ætlar að kveðja formúluna við lok fimmtándu vertíðar …
Felipe Massa ætlar að kveðja formúluna við lok fimmtándu vertíðar sinnar komandi nóvember. AFP

Felipe Massa ætlar að hætta keppni í formúlu-1 við lok yfirstandandi keppnistíðar í greininni. Er hann á sínu fimmtánda ári í keppni í formúlunni.

Massa hóf feril sinn hjá Sauber en þaðn lá leiðin til Ferrari og svo hjá Williams. Brotthvarf sitt tilkynnti hann á sérstökum blaðamannafundi í Monza í dag með liðsstjórann Claire Williams sér við hlið.

Massa hóf keppni með Sauber árið 2002 og í millitíðinni hefur hann unnið 11 mótssigra. Minnstu munaði að hann hreppti heimsmeistaratitil ökumanna árið 2008, en Lewis Hamilton hjá McLaren hafði betur í dramatísku lokamóti í Sao Paulo í Brasilíu og vann titilinn með einu stigi umfram Massa.

Á miðri keppnistíðinni 2009 hlaut Massa alvarlega höfuðáverka er gormur brotnaði úr bíl landa hans Rubens Barrichello og skall á höfuðhjálmi Massa af gríðarlegum krafti. Keppti hann ekki meira það árið.

Massa sneri aftur til keppni 2010 og var fjögur ár til viðbótar hjá Ferrari en hrósaði ekki mótssigri. Gekk hann til liðs við Williams árið 2014 og komst í fyrra og hitteðfyrra fimm sinnum á verðlaunapall. Hápunkturinn var ráspóll í austurríska kappakstrinum í fyrra.

Fyrir utan 11 mótssigra hefur Massa 41 sinni staðið á verðlaunapalli í formúlu-1, 16 sinnum hafið keppni af ráspól og 15 sinnum átt hraðasta hring kappaksturs. Alls hefur hann aflað liðum sínum 1.110 stig í keppni.

Felipe Massa á ferð í Spa-Francorchamps í Belgíu síðastliðinn sunnudag.
Felipe Massa á ferð í Spa-Francorchamps í Belgíu síðastliðinn sunnudag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert