Massa sagður snúa aftur

Williams vill fá Felipe Massa aftur til sín fyrir næsta …
Williams vill fá Felipe Massa aftur til sín fyrir næsta ár. AFP

Felipe Massa mun fresta því að setjast í helgan formúlu-1 stein og mun snúa aftur til keppni með Williamsliðinu á næsta ári, 2017.

Frá þessu skýra bæði þýskir fjölmiðlar og brasilískir. Með þessu er sagt að leiðin sé nú greið fyrir Valtteri Bottas að ganga til liðs við Mercedes í stað Nico Rosberg, sem hætti keppni einnig við vertíðarlok, eftir að hafa unnið heimsmeistaratitil ökumanna.

Auto Bild segir að Massa hafi verið boðnar sex milljónir dollara, jafnvirði um 690 milljónir króna, fyrir að keppa eitt ár til viðbótar fyrir Williams. Mun bæði liðsstjórunum og aðalstyrktarfyrirtæki þess, Martini, vera áfram um að geta teflt fram reyndum ökumanni ásamt kanadíska nýliðanum Lance Stroll.

Blaðið staðhæfir að Lewis Hamilton hafi lagst gegn því að Pascal Wehrlein fengi starfið, en hann er á sérstökum mála hjá Mercedes. Er hann sagður hafa óttast Wehrlein og að það myndi koma illa út fyrir sig að bíða lægri hlut fyrir honum. Þá óttaðist hann einnig að þýski ökumaðurinn myndi njóta forgangs. 

Samsvarandi ástand ríkti á fyrsta ári Hamiltons í keppni með McLaren. Voru þeir liðsfélagar, hann og Fernando Alonso 2007. Nýliðinn var tvöföldum heimsmeistaranum sterkari og var talinn hafa verið tekinn fram yfir meistarann, sem yfirgaf McLaren af þeim sökum eftir eina vertíð. Hamilton virðist sem sagt óttast að sagan frá 2007 gæti endurtekið sig með Wehrlein í því hlutverki þá sem hann sjálfur var í ári ð2007.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert