Eins og gott glóaldin að lit

McLarenbíll ársins var frumsýndur á netinu í dag, á sýningu sem fór fram samtímis í bílsmiðjunni í Woking suður af London og mótorsmiðju Honda í Tókýó.

McLaren hefur einungis tvisvar átt mann á verðlaunapalli frá því það vann síðast mótssigur, eða frá 2012. Undanfarin tvö ár varð það í níunda og svo sjötta sæti í stigakeppni liðanna.

Til leiks mætir það í ár eftir að hafa stokkað verulega upp innra skipulag og ákvarðanatökuferla. Í stað Rons Dennis hefur Zak Brown tekið við forstjórastarfinu.

Glóaldinsliturinn er ekki með öllu óþekktur í herbúðum McLaren því liðið tefldi rauðgulum bílum fram við bílprófanir og æfingar seint á tíunda áratugnum og svo aftur fyrir röskum áratug. Þá voru bílar liðsins í appelsínulitnum seint á sjöunda áratug síðustu aldar og snemma á þeim áttunda.

„Hann er sérdeilis flottur, ég held þetta sé fallegt listaverk og ég get vart beðið þess að sjá Fernando [Alonso] og Stoffel [Vandoorne] taka hann til kostanna,“ sagði Brown við frumsýninguna.

Eins og á bílum margra annarra liða verður McLarenbíllinn með hákarlsugga aftur úr kæliturni vélarhússins og „þumaltrjónu“.

Hondavél mun knýja bíla McLaren í ár sem hin síðustu og sagði íþróttastjóri japanska bílaframleiðandans, Yusuke Hasegawa, að við hönnun hennar og þróun hafi verið tekin mikil áhætta, allt í þeim tilgangi að ná meira afli úr henni og gera McLaren kleift að komast nær toppslagnum í mótum í formúlu-1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert