Räikkönen á besta tíma ársins

Ferrariliðið hefur vakið athygli fyrir aukna snerpu á bílprófum vetrarins sem lauk í Barcelona í dag. Ók Kimi Räikkönen hraðast í dag og náði í leiðinni hraðasta hring frá upphafi reynsluakstursins.

Besti hringur Räikkönen mældist 1:18,634 mínútur. Annar varð Max Verstappen á Red Bull á 1:19,438 mín. og þriðji Carlos Sainz á Toro Rosso á 1:19,837 mín., en tveir síðastnefndu bílarnir eru knúnir Renaultvélum. 

Mercedesmennirnir Valtteri Bottas (1:19,845) og Lewis Hamilton (1:19,850) áttu fjórða og fimmta besta tímann, en á þeim munaði aðeins fimm þúsundustu úr sekúndu. Nico Hülkenberg hjá Renault varð sjötti og síðasti ökumaðurinn til að stinga sér niður fyrir 1:20, ók á 1:19,855 mín. 

Áfram gekk flest á afturfótunum fyrir McLaren og átti Fernando Alonso að lokum aðeins 11. besta tímann, 1:21,389 mín. Vegna rafkerfisbilana gat hann aðeins ekið 43 hringi í dag.  

Sebastian Vettel setti svo hraðasta hring gærdagsins, fimmtudag. Hélt Lewis Hamilton hjá Mercedes því reyndar fram, að Vettel hafi yfirleitt hægt ferðina á síðasta kafla brautarinnar til að reyna sýna keppinautunum ekki á öll kort sín. Telur Hamilton Ferraribílinn miklu hraðskreiðari en virðist og að liðið verði mun skeinuhættara á komandi keppnistíð heldur en þeirri í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert