Bottas engu verri en Rosberg

Mercedesstjórinn Niki Lauda átti öðrum fremur erfitt með að sætta sig við fyrirvaralaust brotthvarf Nico Rosberg úr keppni, en hann hafði vart unnið heimsmeistaratitil ökumanna í fyrra er hann sagðist hættur keppni.

Virðist meistarinn fyrrverandi þó farinn að sætta sig við orðinn hlut því nú á hann vart nógu sterk lýsingarorð til að hrósa arftaka Rosberg, Valtteri Bottas, sem var aðeins rétt rúmri sekúndu á eftir liðsfélaganum Lewis Hamilton í fyrsta móti ársins, í Melbourne.

Bottas dró meir að segja á Hamilton en að lokum, eftir rúmlega 300 kílómetra, munaði aðeins 1,275 sekúndum á þeim. Þessu gladdist Lauda og sagðist efins um að Rosberg myndu hafa gert betur.

„Stærsta vandamálið þegar Nico ákvað skyndilega á einni nóttu að hann ætlaði ekki að keppa fyrir okkur meira var að við vorum gapandi af undrun.  Síðan tóku við mikil fundarhöld okkar Toto Wolf [liðsstjóra] um hvaða ökumann við skyldum velja. Bottas var alltaf efstur á mínu blaði því við þurftum reyndan og hraðskreiðan náunga. Við ræddum líka hinn unga [Pascal] Wehrlei en í mínum huga var of mikil áhætta fólgin í honum vegna reynsluleysis hans.

Bottas var frábær alla  helgina. Ég efast að hann hafi verið verri en Nico hefði orðið væri hann hjá okkur. Niðurstaðan hefði orðið nákvæmlega sú sama,“ segir Lauda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert