Rifta samningi fyrir Silverstone

Frá breska kappakstrinum í fyrra, 2016. Lewis Hamilton kemur fyrstur …
Frá breska kappakstrinum í fyrra, 2016. Lewis Hamilton kemur fyrstur í mark. AFP

Eigendur Silverstone brautarinnar í Englandi, Félag breskra kappakstursmanna (BRDC), hafa nýtt klausu í samningi um breska kappaksturinn formúlu-1 til að losa sig frá framkvæmd hans eftir 2019.

Silverstone skipar mikinn sess í sögu formúlunnar en þar fór fyrsti kappaksturinn í íþróttinni fram árið 1950. Hefur brautin verið aðsetur breska kappakstursins frá 1987 og þar áður fór hann oft fram í brautinni.

Núverandi samningur Silverstone og formúlu-1 tók gildi 2010 og hefði ekki runnið út fyrr en  2026. Ákveðið var að nýta útgönguklásúluna vegna stöðugt hækkandi þóknunar sem greiða þarf fyrir mótshaldið, 5% hækkun á ári. Hefur kappaksturinn verið rekinn með tapi pg munar þar hin háa þóknun sem Bernie Ecclestone krafðist vega þar þungt.

„Við erum komin fram á ystu nöf og getum ekki lengur látið ástríðu okkar fyrir  íþróttinni ráða ferðinni. Í alvöru talað þá er það ekki lengur fjárhagslega mögulegt að halda breska kappaksturinn í samræmi við samninga um mótið,“ sagði John Grant, forstjóri Silverstonebrautarinnar í dag.

Hann segir tapið á mótinu hafa verið 2,8 milljónir punda 2015 og 4,8 milljónir 2016, eða samtals 7,6 milljónir á tveimur árum, en það jafngildir röskum milljarði króna. Kveðst hann eiga von á álíka tapi á mótinu í ár. „Að halda áfram á þessari ósjálfbæru braut gengur ekki og gæti sett brautina í hættu.

Þóknun sem Silverstone greiðir fyrir mótið ár hvert nam 11,5 milljónum punda 2010 en hefur hækkað í 16,2 milljónir punda fyrir mótið um næstu helgi. Hefur það hækkað um 5% árlega og átti að nema 25 milljónum árið 2026, eða sem svarar 3,4 milljörðum króna. Grant segir að annars konar samningur hefði ekki verið í boði er núverandi samningur var gerður árið 2009 til 17 ára.

„Raunveruleikinn er sá, að um margra ára skeið hefur verið tap á mótinu. Við getum ekki haldið áfram að selja eigur til að fjármagna keppnishaldið. Við erum komin á leiðarenda og eini kosturinn sem er í boði er að slíta samningnum,“ sagði Grant.

Hann sagði svo að BRDC væri reiðubúið til að vinna með eigendum viðskiptaréttinda formúlu-1 að því að finna jákvæða lausn á mótshaldinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert