Hamilton í sérflokki

Hamilton sér köflótta flaggið í fimmta sinn í Silverstone í …
Hamilton sér köflótta flaggið í fimmta sinn í Silverstone í ensku brautinni í dag. AFP

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í algjörum sérflokki og sigraði auðveldlega í breska kappakstrinum sem var að ljúka í Silverstone. Komst hann með því í hóp tveggja ökumanna sem unnið hafa breska kappaksturinn fimm sinnum, Englendingsins Jim Clark og Frakkans Alain Prost.

Þá vann Hamilton í Silverstone fjórða árið í röð en svo mörg mót í röð í sömu braut hefur hann aldrei unnið áður.

Keppnin var lítt spennandi nema rimma Sebastians Vettels hjá Ferrari og Max Verstappen hjá Red Bull á fyrsta þriðjungi kappaksturins. Lítið sem ekkert var um stöðubaráttur og ekki hverjum sem er kleift að komast fram úr keppinaut í Silverstone.

Hins vegar hljóp allt í loft upp á þremur síðustu hringjunum er vinstra framdekk undir hverjum bíl fremstu manna af öðrum sprakk. Fyrst hjá Kimi Räikkönen, síðan liðsfélaga hans Vettels og loks hjá Verstappen. Áttu þeir ekki um annað að velja en keyra inn að bílskúr til dekkjaskipta til að tapa sem fæstum sætum.

Räikkönen var á þessari stundu öruggur í öðru sæti, Vettel sömuleiðis einn á báti í fimmta sæti og Verstappen í sjötta. Verst fór Vettel út úr þessu en Räikkönen tapaði aðeins einu sæti og með því þriðja komst hann þrátt fyrir allt á verðlaunapallinn.

Aðeins einu stigi munar

Vegna ófara Ferrari á síðustu hringjunum komst Valtteri Bottas upp í annað sætið og vann Mercedes því tvöfalt. Sömuleiðis styrkti Hamilton stöðu sína í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Munar nú aðeins einu stigi á þeim, Vettel er með 176 og Hamilton 175. Bottas er þriðji með 154 stig, Ricciardo fjórði með 117 stig, Räikkönen fimmti með 98 og Verstappen með 57 í sjötta sæti.

Í keppni liðanna hefur Mercedes góða forystu, er með 330 stig gegn 275 stigum Ferrari. Í þriðja sæti er Red Bull með 174 stig og Force India í því fjórða með 95 stig. .

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert