Hamilton: Vettel vill ekki vera í liði með mér

„Afar ólíklegt“ er að Sebastian Vettel fari til Mercedesliðsins á næstu keppnistíð, 2018, að því er  Lewis Hamilton segir.

Ferrari staðfesti í vikunni að Kimi Räikkönen myndi keppa fyrir liðið á næsta ári en Vettel hefur sagst ekki þurfa neitt að flýta sér í samningamálum. Hefur nýr samningur þó legið á borðinu af Ferrari hálfu um margra vikna skeið.

Vettel var orðaður við Mercedes eftir að Nico Rosberg ákvað að hætta keppni nýkrýndur heimsmeistari ökumanna. Þá hefur orðrómur verið á kreiki í ár um að ákveðnar ráðstafanir hefðu verið gerðar til að Vettel gæti gerst liðsmaður þýska  liðsins 2018.

Er hann var spurður á blaðamannafundi í Spa hvort það væri ekki spennandi tilhugsun að fá Vettel sem liðsfélaga hjá Mercedes brást Hamilton við með hlátri. Lýsti hann stuðningi við að Valtteri Bottas fengi fremur að halda sæti sínu í liðinu á næsta ári.

„Mér þykir afar ólíklegt að hann komi til okkar,“ segir Hamilton sem er 14 stigum á eftir Vettel í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. „Ég veit að hann vill ekki verða liðsfélagi minn,“ bætti Hamilton við.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert