Alonso heiðursfélagi Real Madrid

Spænska knattspyrnuliðið Real Madrid, eitt það sterkasta í heimi, hefur útnefnt Fernando Alonso sem heiðursfélaga. Var það gert við athöfn á leikvangi liðsins, Santiago Bernabéu, í gær.

Alonso var afhent sérstakt skírteini til marks um heiðurinn auk þess sem hann fékk keppnisbol með nafni sínu og númerinu 1 áprentuðu.

„Þetta er alveg stórkostlegur dagur fyrir mig að vera hérna á leikvanginum sem ég fylgist annars náið með úr fjarlægð á ferðalögum um heiminn. Ég fæ stöðugt nýjustu fréttir af því sem er að gerast hjá Real Madrid. 

Ég hef verið stuðningsmaður liðsins frá því ég var lítill strákur. Faðir minn var mikill stuðningsmaður Real Madrid og hann innrætti mér gildi félagsins. Ég er oft spurður hvers vegna ég styðji Real Madrid. Svarið hefur aldrei verið klippt og skorið eða nákvæmt. Ég er bara stuðningsmaður, ég get ekki útskýrt það frekar. Ekkert frekar en hvers vegna ég er með brún augu,“ sagði Alonso við athöfnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert