Dida þarf að svara fyrir sig hjá UEFA

Gert að sárum Dida gegn Celtic í Skotlandi.
Gert að sárum Dida gegn Celtic í Skotlandi. AP

Dida, markvörður ítalska knattspyrnuliðsins AC Milan, verður að svara fyrir sig hjá aganefnd Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, vegna atviks sem átti sér stað í leik gegn Celtic í Skotlandi. Áhorfandi fór inn á völlinn í leyfisleysi í Glasgow eftir að Celtic hafði skorað í 2:1-sigri skoska liðsins í Meistaradeild Evrópu. Áhorfandinn snerti andlit Dida á leið sinni inn á völlinn og í fyrstu ætlaði hinn 34 ára gamli Brasilíumaður að elta sökudólginn uppi en hann hætti við og lét sig falla með tilþrifum í grasið.

Kalla þurfti á lækni inn á völlinn þar sem gert var að sárum Dida og var hann síðan borinn af leikvell og kom hann ekki við sögu meira í leiknum. UEFA segir í tilkynningu sem send var til fjölmiðla í dag að leikmenn eigi að leggja sig fram við að sýna fram á heiðarleika og íþróttamennsku í leikjum.

Dida liggur undir grun um að hafa gert sér upp meiðsli í kjölfar atviksins og sjónvarpsupptökur frá leiknum sýna það glögglega. Hinn 27 ára gamli stuðningsmaður Celtic fær ekki tækifæri til þess að fagna marki með þessum hætti aftur. Hann fær ekki að heimsækja heimavöll félagsins framar og Celtic mun sjá til þess að viðkomandi fái ekki aðganga að útileikjum liðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert