Ólafur ráðinn landsliðsþjálfari í knattspyrnu til ársloka 2009

Frá blaðamannafundi sem stendur yfir í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal, …
Frá blaðamannafundi sem stendur yfir í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal, Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, og Ólafur Jóhannesson, nýráðinn landsliðsþjálfari í knattspyrnu karla, til hægri. mbl.is/Jón Pétur

Ólafur Jóhannesson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari í knattspyrnu karla til næstu tveggja ára. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Íslands sem hófst klukkan 13. Skrifað var undir samninginn fyrir fáeinum mínútum en hann gildir til 31. desember 2009, eða fram yfir þann tíma sem undankeppni heimsmeistaramótsins stendur yfir. Ekki hefur verið gengið frá því hver verður aðstoðarmaður Ólafs með landsliðið eða hvort hann hafi aðstoðarmann við hlið sér.

„Ólafur var okkar fyrsti kostur,“ sagði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, á fyrrgreindum fundi spurður hvort aðrir en Ólafur hafi komið til greina í starfið. Geir sagðist hafa rætt stuttlega við Ólaf á laugardag eftir stjórnarfund KSÍ þar sem sem ekki var hljómgrunnur fyrir áframhaldandi samvinnu við Eyjólf Sverrisson. Þeir hafi síðan tekið upp þráðinn í gær þar sem samningar hafi gengið hratt og örugglega fyrir sig. Ólafur ákvað á dögunum að hætta sem þjálfari FH-inga en hann náði framúrskarandi árangri með Hafnarfjarðarliðið. Undir hans stjórn varð FH Íslandsmeistari þrjú ár í röð, 2004, 2005 og 2006 og varð bikarmeistari í ár í fyrsta sinn í sögu félagsins. Hann sagði starfi sínu lausu fáeinum dögum eftir að FH varð bikarmeistari. Ólafur tekur við starfi landsliðsþjálfara af Eyjólfi Sverrissyni en stjórn KSÍ ákvað á laugardag að endurnýja ekki samning sinn við Eyjólf. Samningurinn rennur út um mánaðarmótin. Fyrsti landsleikur Íslands undir stjórn Ólafs verður við Dani á Parken í Kaupmannahöfn miðvikudaginn 21. nóvember nk. Ólafur er sjötti maðurinn sem ráðinn er landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu á síðustu tíu árum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert