Maldini hættir í vor

Paolo Maldini tekur við heimsbikarnum úr hendi Sepps Blatters, forseta …
Paolo Maldini tekur við heimsbikarnum úr hendi Sepps Blatters, forseta FIFA. AP

Paolo Maldini, sem í gær tók við heimsbikar félagsliða sem fyrirliði AC Milan, tilkynnti eftir sigurinn í úrslitaleiknum gegn Boca Juniors, 4:2, að hann myndi leggja knattspyrnuskóna á hilluna í vor.

Maldini er 39 ára gamall og á langan og glæsilegan feril að baki. Hann hefur leikið með AC Milan samfleytt frá 16 ára aldri, eða í 23 ár, og lék 126 landsleiki fyrir hönd Ítalíu. Deildaleikirnir með AC Milan eru á sjöunda hundrað. Hann hefur unnið fimm Evróputitla með félaginu, sjö ítalska meistaratitla, fjóra "stórbikara Evrópu" og nú heimsbikarinn.

„Ég er svo sannarlega ánægður með uppskeruna á mínum ferli og í júní mun ég leggja skóna á hilluna, mjög sáttur. Það er frábært að hafa bætt þessum titli við, 39 ára gamall, með frábæru félagi eins og AC Milan. Ég hef upplifað allt á mínum ferli en nú eru sársaukinn og barningurinn tekin við. Þetta er ennþá gaman en ég finn víða til og þetta er að verða gott," sagði Maldini.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert