Eiður telur Messi bestan í heimi

Lionel Messi og Eiður Smári fagna marki með Barcelona.
Lionel Messi og Eiður Smári fagna marki með Barcelona. Reuters

Eiður Smári Guðjohnsen, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, telur að félagi sinn hjá Barcelona, Lionel Messi, sé besti knattspyrnumaður heims.

Það er allavega niðurstaðan í kjörinu á knattspyrnumanni ársins hjá FIFA en þar eru það landsliðsfyrirliðar og landsliðsþjálfarar allra aðildarþjóða FIFA sem greiða atkvæði.

Eiður Smári setti Messi í fyrsta sætið á sínum atkvæðaseðli, Cristiano Ronaldo í annað sætið og Kaká í þriðja sætið.

Eyjólfur Sverrisson, fyrrum landsliðsþjálfari, kaus sömu menn en var með Kaká í fyrsta sæti, Ronaldo í öðru sæti og Messi í þriðja sæti.

Þessir þrír urðu efstir, Kaká fékk samtals 1.047 stig, Messi 504 og Ronaldo 426 en síðan komu Didier Drogba með 209 stig og Ronaldinho með 109 stig. Steven Gerrard var síðan sjötti með 68 stig.

Í kjörinu á bestu knattspyrnukonu heims voru Ásthildur Helgadóttir, landsliðsfyrirliði Íslands, og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, sammála um efsta sætið.

Ásthildur setti Mörtu frá Brasilíu í fyrsta sæti, Kelly Smith frá Englandi í annað sæti og Birgit Prinz frá Þýskalandi í þriðja sæti.

Sigurður Ragnar setti Mörtu í fyrsta sæti, Cristiane frá Brasilíu í annað sæti og Kelly Smith í þriðja sæti.

Lokastaðan varð sú að Marta sigraði í kjörinu með 988 stig, Birgit Prinz fékk 507 stig, Cristiane 150 og Kelly Smith varð fjórða með 110 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert