Rijkaard gagnrýndur fyrir að velja Deco umfram Eið Smára

Ronaldinho og Fabio Cannavaro skiptast á orðum í leik Barcelona …
Ronaldinho og Fabio Cannavaro skiptast á orðum í leik Barcelona og Real Madrid í gærkvöld. Reuters

Spænsku blöðin furða sig á þeirri ákvörðun Frank Rijkaard þjálfara Barcelona að velja Deco í byrjunarlið Börsunga á kostnað Eiðs Smára Guðjohnsen í leiknum gegn Real Madrid í gær. Þá er Rijkaard gagnrýndur fyrir að tefla Ronaldinho fram í byrjunarliðinu en Brasilíumaðurinn þótti afar slappur og fær ekki góða fyrir leik sinn.

Sparkspekingar reiknuðu flestir með að Eiður yrði í byrjunarliðinu enda átti hann afar góðan leik gegn Valencia í síðustu viku og skoraði eitt af mörkum liðsins en Rijkaard ákvað að kippa íslenska landsliðsfyrirliðanum út fyrir Deco sem er nýstiginn upp úr meiðslum. Deco átti ekki góðan dag og var tekinn af velli í seinni hálfleik.

Þá áttu þeir ekki von á að Ronaldinho yrði í byrjunarliðinu eftir að hafa vermt varmannabekkinn í 3:0 útisigri Börsunga á Valencia sem er einn besti leikur liðsins á tímabilinu.

„Real Madrid vann leikinn á betra leikskipulagi og leikmenn liðsins voru í betra líkamlegu ástandi en ekki af því að þeir áttu einhvern stjörnuleik," segir í spænska íþróttablaðinu Sport.

„Barcelona upplifir martröð fyrir jólin en hjá Real Madrid verða jólin hvít,“ segir Í El Mundo Deportivo.

Mörg spænsku blaðanna velta fyrir sér framtíð Ronaldinho og Rijkaard hjá Barcelona en eftir ósigurinn í gær eru Börsungar sjö stigum á eftir Spánarmeisturunum Real Madrid.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert