„Áhorfendur gáfu mér mikinn kraft“

Margrét Lára Viðarsdóttir fagnar eftir að hafa komið Íslandi í …
Margrét Lára Viðarsdóttir fagnar eftir að hafa komið Íslandi í 2:0 í dag. mbl.is/Eggert

„Okkar leikskipulag gekk fullkomlega upp. Þær komu sterkar til leiks í byrjun en við lögðum upp með að pressa vel á þær og brjóta þær niður sem fyrst, og það gekk bara fullkomlega upp,“ sagði markadrottning Íslands, Margrét Lára Viðarsdóttir, sem skoraði þrennu í 5:0 sigrinum á Slóveníu í dag.

Margrét Lára skoraði þar með sitt fertugasta mark fyrir Ísland í 42 leikjum, þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gömul og að hafa þurft að yfirgefa völlinn eftir um klukkutíma leik vegna meiðsla.

„Mér leið alveg ágætlega og stuðningur áhorfenda gaf manni rosa mikinn kraft en því miður varð ég að fara af velli. Það var samt bara vegna smávægilegra meiðsla og ég mæti spræk í leikinn á fimmtudaginn,“ sagði Eyjamærin, sem ætlar sér einnig sigur í leiknum við Grikki á fimmtudag.

„Að sjálfsögðu fögnum við þessum úrslitum í kvöld, maður á að njóta stundarinnar, en strax á morgun förum við að hugsa um Grikkina því þeir eru sýnd veiði en ekki gefin,“ sagði Margrét Lára.

Nánari umfjöllun um leikinn og ítarlegra viðtal við Margréti Láru verður í Morgunblaðinu á mánudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert