Logi: Þeir eru reynslunni ríkari

Logi býst við sprækum Fjölnismönnum á Laugardalsvellinum á laugardaginn.
Logi býst við sprækum Fjölnismönnum á Laugardalsvellinum á laugardaginn. mbl.is/Kristinn

Logi Ólafsson þjálfari KR býst við jöfnum og spennandi leik þegar liðið mætir Fjölni í úrslitaleik VISA-bikars karla í knattspyrnu á laugardaginn, og segir sína menn tilbúna í 120 mínútna leik og jafnvel lengur ef þess gerist þörf.

„Leikurinn við Breiðablik í undanúrslitunum var býsna dramatískur en fyrsti leikurinn, gegn Breiðhyltingum, reyndist okkur einnig býsna erfiður. Blikaleikurinn var samt bæði langur og erfiður en sem betur fer náðum við að knýja fram sigur í vítaspyrnukeppni þar sem mér fannst við standa mjög keikir og sýna mjög jákvætt hugarfar sem er það sem þarf í slíkri keppni,“ sagði Logi í samtali við mbl.is á fréttamannafundi sem haldinn var í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

„Við ætlum auðvitað að reyna að vinna leikinn á 90 mínútum en ef við þurfum framlengingu eða vítaspyrnukeppni þá erum við tilbúnir í þann slag,“ bætti Logi við.

Fjölnismenn komust einnig í úrslitaleikinn á síðasta ári en töpuðu þá fyrir FH-ingum. Logi segir þá reynslu eiga eftir að nýtast Grafarvogsliðinu á laugardaginn.

„Við gerum okkur alveg grein fyrir því að við erum að fara að leika gegn mjög spræku liði sem er erfitt viðureignar. Þar nægir að vísa til leikjanna tveggja gegn þeim í sumar. Þeir hafa það fram yfir okkur í dag að hafa leikið þennan bikarúrslitaleik í fyrra og koma því reynslunni ríkari í leikinn. Við erum ekki með nema sex leikmenn held ég sem hafa leikið bikarúrslitaleik þannig að þeir hafa kannski eitthvað fram yfir okkur í þeim efnum.“

Miðasala á leikinn er hafin á miði.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert