Eiður á blaði í stórsigri Barcelona

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Reuters

Barcelona gerði sér lítið fyrir og sökkti spútnikliði Atletico de Madrid í spænsku deildarkeppninni í kvöld. Lokatölur urðu 6:1.

Eiður Smári Guðjohnsen komst á blað í leiknum en hann skoraði fimmta mark Barcelona sem eins og tölurnar gefa til kynna átti leikinn frá upphafi til enda.

Önnur mörk Barcelona skoruðu þeir Rafael Marquez, Leo Messi, Thierry Henry og Samuel Eto´o sem skoraði tvívegis.

Koma úrslitin eins og þruma úr heiðskýru Miðjarðarhafslofti fyrir flesta sem með spænska boltanum fylgjast. Atletico hefur verið á rífandi siglingu bæði á Spáni og eins í Meistaradeildinni og þeir eru jafnan taldir með einn vænlegasta sóknarmann heims, Sergio Aguero, innan sinna raða.

Þótti það einkar merkilegt við leikinn að Aguero er besti vinur Leo Messi og þeir tveir mjög gjarnan bornir saman. Aguero skoraði þó ekkert mark í kvöld.

Barcelona borg iðar af gleði eftir slík úrslit gegn fjendum frá höfuðborginni og ekki síst vegna þess að Barcelona þykir ekki hafa verið sannfærandi lengi vel.

Lið Villareal sigraði Real Betis á sama tíma 2:1 og sigurinn þýðir að Villareal er sem stendur efst í spænsku deildinni. Fjölmargir leikir fara þó fram á morgun sunnudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert