Babel: Hefðum getað unnið stærri sigur

Babel í leik gegn Real Madrid í Meistaradeildinni á nýliðinni …
Babel í leik gegn Real Madrid í Meistaradeildinni á nýliðinni leiktíð. Reuters

„Markmiðið var að tryggja okkur sæti í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins með sigri í þessum leik og það tókst svo við erum ánægðir með niðurstöðuna,“ sagði Liverpoolmaðurinn Ryan Babel, leikmaður hollenska landsliðsins sem vann það íslenska 2:1 í undankeppni HM í knattspyrnu í kvöld.

„Við unnum okkar heimavinnu og vissum að þetta yrði erfiður leikur, og við vorum einfaldlega mjög einbeittir alveg frá upphafi,“ sagði Babel í samtali við mbl.is og tók undir að sigurinn hefði getað orðið stærri en Hollendingar fengu fjölda marktækifæra í fyrri hálfleik.

„Við hefðum vel getað unnið með meiri mun og það hefði tekist ef ákveðnir leikmenn hefðu nýtt betur færin sín snemma í leiknum,“ sagði Babel.

Íslenska liðið lét vel finna fyrir sér á köflum í leiknum og oft voru tæklingarnar ansi háskalegar. Babel sagði þá leikaðferð nauðsynlega fyrir íslensku leikmennina.

„Þeir verða að spila svona. Ef þeir gerðu það ekki hefði leikurinn orðið mun auðveldari fyrir okkur. Ég spilaði bara fimmtán mínútur en ég get ímyndað mér að menn hafi verið orðnir pirraðir á þessum tæklingum,“ sagði Babel sem merkilegt nokk vildi ekkert gefa út um framtíð sína hjá Liverpool en hann hefur verið sagður á förum frá félaginu.

„Ég tjái mig ekkert um það,“ sagði Babel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert