KR sneri taflinu við gegn Fjölni

Björgólfur Takefusa skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að …
Björgólfur Takefusa skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að Illugi Þór Gunnarsson, sem hér er með boltann, braut af sér. mbl.is/Kristinn

KR vann 2:1 sigur á Fjölni í kvöld í 16-liða úrslitum VISA-bikars karla í knattspyrnu eftir að hafa lent undir í seinni hálfleik. Fjórum leikjum var að ljúka og eru 2. deildarlið Víkings Ó., KR, Stjarnan og Þróttur R. komin í 8-liða úrslit. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Leikur Vals og Víkings R. hófst kl. 20 og er fylgst með gangi mála þar í annarri frétt hér á mbl.is, sem sjá má með því að smella hér.

Víkingur Ó. vann Fjarðabyggð 3:2 í hörkuleik í Ólafsvík og Stjarnan hafði betur gegn BÍ/Ólafsvík vestur á fjörðum, 2:0. Loks vann Þróttur R. 1:0 sigur á ÍA með marki snemma leiks.

Víkingur Ó. - Fjarðabyggð, 3:2 - LEIK LOKIÐ
Alexandrs Cekulajev 15., 63., Tomasz Luba 55. - Aron Már Smárason 50., Stefán Þór Eysteinsson 76.
BÍ/Bolungarvík - Stjarnan, 0:2 - LEIK LOKIÐ
Ólafur Karl Finsen 12., Halldór Orri Björnsson 49. (víti).
Fjölnir - KR, 1:2 - LEIK LOKIÐ
Pétur Georg Markan 50. - Baldur Sigurðsson 61., Björgólfur Takefusa 75. (víti).
ÍA - Þróttur R., 0:1 - LEIK LOKIÐ
Erlingur Jack Guðmundsson 12.

21:15 Öllum leikjum lokið.

21:08 Leikjum ÍA og Þróttar, og KR og Fjölnis, er lokið.

20:57 Stefán Eysteinsson var að minnka muninn í 3:2 fyrir Fjarðabyggð með góðu skoti. Enn er korter eftir af leiknum.

20:51 Björgólfur Takefusa kom KR í 2:1 með marki úr vítaspyrnu eftir að Illugi Þór Gunnarsson braut klaufalega á Óskari Erni Haukssyni innan vítateigs.

20:43 Alexandrs Cekulajev var að bæta við sínu öðru marki og þriðja marki Víkinga gegn Fjarðabyggð eftir gott samspil. Víkingar komust svo í dauðafæri strax í næstu sókn en náðu ekki að nýta það.

20:36 Baldur Sigurðsson var að jafna metin fyrir KR-inga í Grafarvogi með skalla eftir fyrirgjöf frá Skúla Jóni Friðgeirssyni af hægri kantinum.

20:35 Víkingar voru ekki lengi að komast aftur yfir í Ólafsvík. Tomasz Luba skoraði með skalla eftir góða fyrirgjöf frá Brynjari Kristmundssyni.

20:31 Aron Már Smárason var að skora enn eitt markið fyrir Fjarðabyggð í sumar og jafna metin gegn Víkingi í Ólafsvík, með skalla eftir fyrirgjöf frá vinstri. Víkingar voru nálægt því að komast aftur yfir í næstu sókn en Fjarðabyggð bjargaði á marklínu. Halldór Orri Björnsson var jafnframt að koma Stjörnunni í 2:0 gegn BÍ/Bolungarvík með marki úr vítaspyrnu.

20:26 Pétur Georg Markan kom Fjölni yfir gegn KR á 50. mínútu með frábæru skoti úr vítateignum eftir að boltinn var sendur út til hans frá vinstri. Rétt áður hafði KR átt þrjú skot að marki í sömu sókninni.

20:20 Búið er að flauta til leikhlés í leik BÍ/Bolungarvíkur og Stjörnunnar nú þegar seinni hálfleikur er að hefjast í öðrum leikjum. Það kemur kannski einhverjum á óvart að staðan skuli vera markalaus í leik Fjölnis og KR en þar hefur Vesturbæjarliðið verið meira með boltann án þess að skapa sér virkilega góð færi. Fjölnismenn hafa hins vegar átt hættulegar skyndisóknir.

20:09 Nú ætti að vera búið að flauta til leikhlés í leikjunum fjórum ef undan er skilinn leikur BÍ/Bolungarvíkur og Stjörnunnar sem hófst nokkrum mínútum síðar en ella vegna tafa á flugi dómara.

19:40 Hinn efnilegi Ólafur Karl Finsen kom Stjörnunni yfir vestur á fjörðum á 12. mínútu. Alexandrs Cekulajev kom Víkingi Ó. yfir gegn Fjarðabyggð skömmu síðar með glæsilegu marki en hann lék á tvo varnarmenn áður en hann skoraði.

19:30 Erlingur Jack Guðmundsson skoraði fyrsta mark kvöldsins fyrir Þrótt sem komst yfir gegn ÍA á 12. mínútu. Erlingur skoraði með skalla eftir hornspyrnu.

19:15 Nú ættu leikirnir fjórir að vera byrjaðir. Skagamenn eru á tánum og hafa sett inn leikskýrslu svo forvitnir geta skoðað byrjunarliðin í leik ÍA og Þróttar R. með því að smella á hlekkinn hér að ofan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert