Veigar Páll: Ótrúlega ánægður

Veigar Páll skrifar undir samninginn.
Veigar Páll skrifar undir samninginn. www.vif-fotball.no

Veigar Páll Gunnarsson er orðinn leikmaður norska úrvalsdeildarliðsins Vålerenga en staðfest er á vef félagsins í dag að hann hafi skrifað undir þriggja ára samning við liðið. Veigar kemur til Vålerenga  frá Stabæk en fyrr í vikunni benti flest til þess að hann myndi ganga í raðir meistaraliðsins Rosenborg.

,,Ég er ótrúlega ánægður. Ég þekki vel til Vålerenga sem er stórt og öflugt félag og ég hef þá trú að ég eigi eftir að vinna eitthvað með liðinu,“ segir Veigar Páll á vef Vålerenga.

,,Það hefur verið verið mikið rætt og ritað um mína framtíð en nú er hlutirnir komnir á hreint og það er virkilega ánægjulegt.“

Vålerenga er þriðja norska liðið sem Veigar leikur með en hann hóf ferilinn í Noregi með Strømsgodset árið 2001 og þaðan lá leiðin til Stabæk en í millitíðinni lék hann með KR og varð meistari með því árin 2002 og 2003.

Veigar, sem er uppalinn hjá Stjörnunni í Garðabæ, samdi við Stabæk árið 2004 og lék með því til ársins 2008 en þá gekk hann til liðs við Nancy í Frakklandi. Vistin þar reyndist ekki góð fyrir Veigar og hann sneri aftur til Stabæk árið 2009.

Félagaskiptin taka gildi 1. ágúst og hann leikur því kveðjuleikinn með Stabæk á morgun þegar liðið leikur við Start.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert