Hjörtur fær mikið lof

Hjörtur Hermannsson.
Hjörtur Hermannsson. Ljósmynd/Soccernews.nl

Miðvörðurinn Hjörtur Hermannsson fær góða dóma fyrir frammistöðu sína í sigri Jong PSV gegn NEC Nijmegen í næstefstu deild Hollands í knattspyrnu í gær, þegar Jong PSV vann nokkuð óvæntan 1:0-sigur á NEC. NEC, sem lék án Kristjáns Gauta Emilssonar, er þó spáð beint upp í efstu deild á ný þar sem liðið lék á síðustu leiktíð.

„Undir forystu Hjartar Hermannssonar og Jordys de Assigns í vörn Jong PSV hélt liðið út og landaði sigri,“ segir í umfjöllun um leikinn á vefsíðunni ED.nl.

Á voetbalzone.nl er mikið gert úr tapi NEC og þar er Hjörtur valinn maður leiksins með hæstu einkunn allra á vellinum eða 8.

Hjörtur, sem er 19 ára, er nýstiginn upp úr erfiðum meiðslum, Hann er á mála hjá hollenska efstudeildarliðinu PSV Eindhoven en leikur sem stendur með nokkurs konar varaliði félagsins, Jong PSV, deild neðar. Hann á að baki fjölda landsleikja fyrir öll yngri landslið Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert