Kolbeinn framlengdi samninginn við Ajax

Kolbeinn Sigþórsson verður áfram hjá Ajax í vetur og leikur …
Kolbeinn Sigþórsson verður áfram hjá Ajax í vetur og leikur með liðinu í Meistaradeild Evrópu. mbl.is/Eggert

Kolbeinn Sigþórsson verður áfram framherji hollensku meistaranna í Ajax í vetur eftir að hafa framlengt samning sinn við félagið um eitt ár, til ársins 2016. Fyrri samningurinn átti að renna út að ári.

Þetta er fullyrt á fréttavef Vísis. Kolbeinn sagði sjálfur í upphafi sumars að hann reiknaði með að fara frá Ajax í sumar og hann hefur til að mynda verið orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið QPR. Í samtali við Morgunblaðið 18. ágúst sagðist Kolbeinn hins vegar ekkert hafa heyrt frá QPR.

„Ég sé bara til hvað gerist á næstu dögu mog vikum. Það er í rauninni ekkert í gangi sem stendur og á meðan einbeiti ég mér bara að því að spila með Ajax. Það getur verið að ég fari frá félaginu en það getur líka verið að ég verði um kyrrt. Maður veit aldrei hvað gerist á síðustu dögunum áður en félagaskiptaglugginn lokast,“ sagði Kolbeinn þá við Morgunblaðið.

Kolbeinn hefur leikið með Ajax frá árinu 2011 og orðið hollenskur meistari öll þrjú árin með liðinu. Hann hefur verið í liði Ajax í fyrstu leikjum tímabilsins en liðinu hefur ekki tekist að finna framherja sem myndi fylla skarð íslenska landsliðsframherjans ef hann færi. Ajax reyndi meðal annars að fá Samuel Eto'o sem nú hefur samið við Everton.

Kolbeinn verður því í sviðsljósinu í Meistaradeild Evrópu í vetur með Ajax þegar liðið mætir stórliðum Barcelona og París SG, sem og APOEL frá Kýpur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert