Ronaldo einn þriggja sem slá Viðari við

Viðar Örn Kjartansson hefur skorað 24 deildarmörk fyrir Vålerenga í …
Viðar Örn Kjartansson hefur skorað 24 deildarmörk fyrir Vålerenga í ár. Ljósmynd/dagbladet.no

Viðar Örn Kjartansson er ekki bara langmarkahæstur í norsku úrvalsdeildinni heldur er hann í 4. sæti í allri Evrópu yfir þá sem flest mörk hafa skorað í síðustu 22 leikjum sínum.

Viðar hefur skorað 24 mörk í 22 deildarleikjum fyrir Vålerenga eftir að hann kom til félagsins frá Fylki. Norski miðillinn Adressa.no hefur til samanburðar tekið saman lista yfir þá sem flest mörk hafa skorað í síðustu 22 leikjum sínum í efstu deildum Evrópu.

Aðeins þrír leikmenn hafa skorað fleiri mörk en Viðar. Jonathan Soriano hefur skorað 30 mörk fyrir Red Bull Salzburg í Austurríki, Evgeny Kabaev 28 mörk fyrir Sillamäe Kalev í Eistlandi, og Cristiano Ronaldo hefur skorað 25 mörk fyrir Real Madrid í síðustu 22 deildarleikjum.

Fast á hæla Viðars koma Lionel Messi með 22 mörk, og Zlatan Ibrahimovic með 20 mörk.

Alfreð Finnbogason er einnig ofarlega á lista en hann skoraði 18 mörk í 22 síðustu deildarleikjum sínum með Heerenveen áður en hann hélt til Real Sociedad.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert