UEFA-draumur Ragnars á enda

Pavel Mamaev hjá Krasnodar og Sebastien Corchia hjá Lille í …
Pavel Mamaev hjá Krasnodar og Sebastien Corchia hjá Lille í baráttu í leiknum í kvöld. AFP

Ragnar Sigurðsson og samherjar í rússneska liðinu Krasnodar gerðu í kvöld jafntefli, 1:1, við Lille frá Frakklandi á heimavelli í riðlakeppni Evrópudeildar UEFA og eiga þar með ekki lengur möguleika á að komast áfram í 32ja liða úrslit keppninnar.

Ari kom Krasnodar yfir á 35. mínútu og gaf Rússunum von um að vera enn með í baráttunni. Hún varð að engu þegar Nolan Roux jafnaði fyrir Frakkana á 79. mínútu leiksins.

Krasnodar er því enn án sigurs í riðlinum en er með 3 stig eftir þrjú jafntefli og tvo ósigra. Ragnar lék allan leikinn í vörn rússneska liðsins.

Everton er með 8 stig, Wolfsburg 7 og Lille 4 stig. Fyrri hálfleik er lokið hjá Wolfsburg og Everton og þar er enska liðið með 1:0 forystu eftir mark frá Romelu Lukaku. Ef það verður niðurstaðan verður viðureign Lille og Wolfsburg í lokaumferðinni hreinn úrsitaleikur um hvort liðið kemst áfram með Everton.

Úrslitin í Rússlandi þýða að Everton fer áfram, sama hvernig leikurinn við Wolfsburg endar.

Ragnar og félagar eiga eftir að heimsækja Everton á Goodison Park í Liverpool en liðin mætast þar 11. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert