Ekki hægt að sleppa því

Arnór Smárason
Arnór Smárason mbl.is/Eggert

„Það var ekki hægt að sleppa þessu tækifæri til að upplifa það ævintýri að búa og spila í Moskvu. Ég fer mjög spenntur þangað og markmiðið er að standa sig vel og eiga í framhaldinu fleiri góða möguleika í sumar,“ sagði knattspyrnumaðurinn Arnór Smárason við Morgunblaðið í gær, eftir að gengið hafði verið frá lánssamningi hans frá Helsingborg í Svíþjóð til rússneska liðsins Torpedo frá Moskvu.

Arnór, sem á tæp tvö ár eftir af samningi sínum við Helsingborg, verður lánaður til Torpedo til loka júnímánaðar og getur því spilað síðustu þrettán umferðir rússnesku úrvalsdeildarinnar, sem lýkur í maí. Torpedo er í fallbaráttu og gæti hæglega þurft að fara í umspil að deildinni lokinni.

„Þetta hefur verið í gerjun í tæpar tvær vikur. Helsingborg vildi fyrst og fremst selja mig en Rússarnir þrýstu á um lán og þegar Svíarnir féllust á það gengu hlutirnir hratt. Nú er ég á förum til Tyrklands en liðið er þar í æfingabúðum og verður fram að fyrsta leik eftir vetrarfríið,“ sagði Arnór.

Sjá allt viðtalið við Arnór í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert