Ronaldo kvaddi tímabilið með þrennu

Cristiano Ronaldo skoraði þrennu gegn Getafe í kvöld.
Cristiano Ronaldo skoraði þrennu gegn Getafe í kvöld. AFP

Real Madrid fór illa með Getafe á Santiago Bernabeu í kvöld er liðin léku síðasta deildarleik tímabilsins, en leiknum lauk með 7:3 sigri Madrídinga.

Portúgalski vængmaðurinn, Cristiano Ronaldo, kom Real Madrid á bragðið með skallamarki á 13. mínútu áður en Sergio Escudero jafnaði metin. Diego Castro kom gestunum yfir stuttu síðar, en Ronaldo svaraði með öðru marki.

Hann fullkomnaði svo þrennu sína tveimur mínútum síðar með marki úr vítaspyrnu. Þetta var 48 mark Ronaldo í deildinni og 61 mark hans í öllum keppnum. Mehdi Lacen jafnaði metin fyrir Getafe undir lok fyrri hálfleiks. Sex marka fyrri hálfleikur, en fjörið var svo sannarlega ekki búið.

Madrídingar tóku við sér í byrjun síðari hálfleiks og gerðu tvö mörk. Javier Hernandez og James Rodriguez gerðu mörkin.

Ronaldo var tekinn af velli á 58. mínútu, en inná í hans stað kom norska undrabarnið, Martin Ödegaard. Þetta var fyrsti leikur Ödegaard með aðalliðinu, en hann er yngsti leikmaður í sögu félagsins til að spila með aðalliðinu.

Jese Rodriguez skoraði sjötta markið áður en Marcelo gerði sjöunda og síðasta mark Real Madrid í kvöld og lokatölur því 7:3. Tímabilið hjá Madrídingum er því lokið, en liðið endaði í 2. sæti deildarinnar með 92 stig, tveimur stigum á eftir Barcelona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert