England krækti í bronsverðlaunin

Leikmenn Englands fagna sigrinum í leikslok í Edmonton í kvöld.
Leikmenn Englands fagna sigrinum í leikslok í Edmonton í kvöld. AFP

England sigraði Þýskaland, 1:0, í úrslitaleiknum um bronsverðlaunin á heimsmeistaramóti kvenna í knattspyrnu sem fram fór í Edmonton í Kanada í kvöld og skoraði enska liðið sigurmarkið í framlengingu.

Þetta er í fyrsta sinn sem England vinnur til verðlauna á heimsmeistaramóti kvenna og jafnframt í fyrsta skipti í 21 tilraunum sem England leggur Þýskaland að velli í A-landsleik kvenna.

Fara Williams skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á þriðju mínútu í seinni hálfleik framlengingar eftir að brotið var á Lianne Sanderson.

Þýska liðið var sterkari aðilinn framan af leiknum en Englendingar náðu undirtökum þegar leið á seinni hálfleikinn. Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma. Mikil barátta einkenndi leikinn og bæði lið fengu ágæt færi til að skora. Sigurviljinn var áberandi meiri hjá Englendingum og þegar upp var staðið var sigur þeirra sanngjarn.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

120. Tveimur mínútum bætt við.

116. Bianca Schmidt fær gott færi hægra megin í markteig Englands, kastar sér fram og skallar eftir fyrirgjöf en hittir boltann illa og hann fer framhjá markinu.

114. Anja Mittag með hörkuskot eftir aukaspyrnu við vítateigslínu Englands. Gott færi en beint á Karen Bardsley sem ver og heldur boltanum. Þetta var hættulegt! Fá Þjóðverjar betra færi?

112. Fara Williams fer útaf hjá Englandi og Casey Stoney kemur í hennar stað.

110. Karen Carney fer af velli hjá Englandi, haltrandi - kemur reyndar aftur inná.

108. MARK - 0:1. England nær forystunni, Fara Williams skorar af öryggi úr vítaspyrnunni.

107. VÍTI - á Þjóðverja. Tabea Kemme hangir í Liannne Sanderson, of lengi að mati dómarans!

105. Hálfleikur í framlengingu. Melanie Leupolz átti hörkuskot yfir mark Englands rétt áður en flautað var af.

101. Alexandra Popp kemur inná fyrir Lenu Goessling hjá Þjóðverjum. Popp er með hlífðarhjálm, svipaðan og Petr Cech, en hún fékk höfuðhögg í undanúrslitaleiknum gegn Bandaríkjunum.

92. GULT. Laura Bassett, annar miðvarða Englands, fær gula spjaldið fyrir að sparka liggjandi í mótherja eftir að búið var að dæma. Tæknilega kannski rautt spjald en samt óþarfi þarna.

91. Framlengingin er hafin, 2x15 mínútur. Vítaspyrnukeppni ef það dugir ekki.

90. Leik lokið - það verður framlengt í Edmonton. Hörkuslagur og ekkert gefið eftir en mörkin láta á sér standa. Enska liðið tók að mestu völdin á vellinum á lokakafla venjulegs leiktíma og sótti á köflum stíft að þýska markinu.

90. Þarna bætti Laura Bassett að einhverju leyti fyrir sjálfsmarkið slysalega gegn Japan. Efnileg skyndisókn Þjóðverja en Bassett komst inní sendinguna á miðlínu vallarins af miklu harðfylgi. Þrjár liggja eftir á vellinum í kjölfarið en geta allar haldið áfram.

90. Fjórum mínútum er bætt við. Verður framlengt? Allar líkur á því.

89. Þung sókn Englands og henni lýkur með skoti frá Steph Houghton frá vítateig en yfir þýska markið.

86. Eniola Aluko geysist inní þýska vítateiginn en Nadine Angerer er eldsnögg á móti henni og nær að loka og bjarga. Angerer þarf aðhlynningu en nær að halda áfram. Það þarf meira en þetta til að stöðva þennan magnaða markmann í kveðjuleik sínum á ferlinum!

83. GULT. Karen Bardsley markvörður Englands var of lengi að taka útspark að mati norður-kóreska dómarans sem smellir á hana gula spjaldinu.

80. Lianne Sanderson kemur inná fyrir Katie Chapman hjá Englandi.

77. GULT. Katie Chapman, þriggja barna móðirin á miðjunni hjá enska liðinu, fær gula spjaldið fyrir brot.

76. Þung sókn Englands og tvö til þrjú færi til að skora. Jill Smith var komin gegn Nadine Angerer sem lokaði á hana og að lokum varð ekkert úr skotinu. Sóknin hélt áfram og síðan munar engu að Smith nái til boltans í markteignum eftir fyrirgjöf.

72. Anja Mittag kemur inná hjá Þýskalandi fyrir Céliu Sasic. Mittag hefur skorað 5 mörk á HM og er næst markahæst í keppninni. Það er einmitt Sasic sem er markahæst með 6 mörk og nú fær Mittag tækifæri til að ná henni eða hirða efsta sætið.  

69. Þjóðverjar eru með undirtökin í leiknum og nú á Tabea Kemme hörkuskot rétt framhjá marki Englands eftir góðan sprett.

61. Ellen White fer af velli hjá enska liðinu og Eniola Aluko, nígerískættaður lögfræðingur, kemur inná í liði Englands.

60. Hættulegur skalli að marki Englands eftir hornspyrnu en Bardsley kýlir boltann frá og varnarmenn koma honum í burtu.

56. Edda Garðarsdóttir @eddagardars á Twitter: Karen Carney mun líka keppa í dýfingum á ÓL2016.

54. Stórhætta við mark Englands og Lena Petermann þrumar á markið af markteig en varnarmenn kasta sér fyrir hana og bjarga.

53. Glæsileg tilþrif á báða bóga. Sara Däbritz með glæsilegt, viðstöðulaust skot á lofti úr miðjum vítateig og Karen Bardsley markvörður Englendinga ver stórglæsilega í horn.

46. Seinni hálfleikur er hafinn. Silvia Neid gerir eina breytingu á þýska liðinu. Melanie Leupolz kemur inná fyrir Melanie Behringer.

45. Hálfleikur og staðan er 0:0. Þýskaland hefur verið heldur sterkari aðilinn og fengið betri færi en hvorugu markinu hefur verið ógnað að ráði síðan á 18. mínútu leiksins. Það er hinsvegar ekkert gefið eftir í Edmonton í kvöld.

40. Staðan er 0:0. Ekkert gefið eftir og enska liðið virðist slá það þýska talsvert út af laginu.

30. Staðan enn 0:0. Mikil barátta en engin færi undanfarnar mínútur.

18. Sara Däbritz með hörkuskot að marki Englands frá vítateig en yfir þverslána. England átti mjög góðan kafla en nú virðist þýska liðið vera að ná völdunum á ný eins og það hafði fyrstu tíu mínúturnar.

12. Steph Houghton í góðu færi við þýska markið, rétt utan markteigs, en skýtur beint á Nadine Angerer í markinu.

9. Célia Sasic kemst í ágætt færi eftir mistök Englendinga en skýtur beint á Karen Bardsley í markinu.

8. Step Houghton fyrirliði Englands bjargar glæsilega á marklínu eftir skalla frá Simone Laudehr. Hjólhestaspyrna hjá fyrirliðanum!

4. Edda Garðarsdóttir @eddagardars á Twitter: Katie Chapman. Þriggja barna móðir á miðjunni. HM2015. Hats off!

1. Þjóðverjar byrja á góðri sókn og eftir 35 sekúndur á Lena Petermann hörkuskalla sem Karen Bardsley í marki Englands ver vel í horn.

1. Leikurinn er hafinn í Edmonton.

Nadine Angerer er á sínum stað í marki þýska liðsins en þetta er kveðjuleikur hennar á ferlinum því hún hyggst nú leggja skóna á hilluna, 36 ára gömul.

England hefur þegar náð sínum besta árangri með að komast í undanúrslitin á þessu móti og leika um bronsverðlaunin. Þýskaland hefur hinsvegar leikið fjórum sinnum um verðlaun á þeim sex heimsmeistaramótum sem haldin hafa verið til þessa. Þjóðverjar urðu heimsmeistarar 2003 og 2007, fengu silfrið 1995 en töpuðu leiknum um bronsið á fyrsta mótinu árið 1991. Þá hefur Þýskaland orðið Evrópumeistari sex sinnum í röð.

Þýskaland tapaði 0:2 fyrir Bandaríkjunum í undanúrslitum keppninnar en England tapaði 1:2 fyrir heimsmeisturum Japans á slysalegu sjálfsmarki í uppbótartíma.

England hefur aldrei náð að sigra Þýskaland í 20 leikjum þjóðanna. Þær hafa tvisvar áður mæst á HM, Þjóðverjar unnu 3:0 árið 1995 en liðin gerðu 0:0 jafntefli árið 2007. Þá vann Þýskaland stórsigur, 6:2, þegar liðin mættust í úrslitaleik Evrópukeppninnar í Finnlandi árið 2009. Þjóðverjar hafa sigrað 18 sinnum og tvisvar hafa liðin skilið jöfn.

Lið Þýskalands: Nadine Angerer (fyrirliði), Bianca Schmidt, Saskia Bartusiak, Simone Laudehr, Melanie Behringer, Célia Sasic, Babett Peter, Lena Petermann, Lena Goessling, Tabea Kemme, Sara Däbritz.

Lið Englands: Karen Bardsley, Fara Williams, Steph Houghton (fyrirliði), Laura Bassett, Jill Scott, Karen Carney, Lucy Bronze, Alex Greenwood, Katie Chapman, Jo Potter, Ellen White

Fara Williams fagnar eftir að hafa skorað fyrir England úr …
Fara Williams fagnar eftir að hafa skorað fyrir England úr vítaspyrnu í framlengingunni. AFP
Laura Bassett miðvörður Englands stöðvar Melanie Leupolz.
Laura Bassett miðvörður Englands stöðvar Melanie Leupolz. AFP
Lucy Bronze og Lena Petermann stíga dans í Edmonton í …
Lucy Bronze og Lena Petermann stíga dans í Edmonton í kvöld. AFP
Lena Petermann sækir að marki Englands en Steph Houghton fyrirliði …
Lena Petermann sækir að marki Englands en Steph Houghton fyrirliði stöðvar hana. AFP
Fara Williams og Melanie Behringer í baráttu um boltann í …
Fara Williams og Melanie Behringer í baráttu um boltann í leiknum í kvöld. AFP
Nadine Angerer markvörður Þjóðverja slær boltann en Katie Chapman sækir …
Nadine Angerer markvörður Þjóðverja slær boltann en Katie Chapman sækir að henni. AFP
Katie Chapman og Célia Sasic eigast við og Steph Houghton …
Katie Chapman og Célia Sasic eigast við og Steph Houghton fylgist með. AFP
Þýska liðið stillir sér upp fyrir leikinn í Edmonton í …
Þýska liðið stillir sér upp fyrir leikinn í Edmonton í kvöld. AFP
Mark Sampson þjálfari Englendinga gefur sínu liði fyrirskipanir.
Mark Sampson þjálfari Englendinga gefur sínu liði fyrirskipanir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert