Vorum niðurlægð en hún er stórkostleg

Norio Sasaki þjálfari Japana.
Norio Sasaki þjálfari Japana. AFP

Norio Sasaki þjálfari Japana lýsti yfir aðdáun sinni á Carli Lloyd, sem lék hans lið grátt í úrslitaleik heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu í Vancouver í nótt með því að skora þrennu í 5:2-sigri Bandaríkjanna.

„Ungfrú Lloyd fer alltaf illa með okkur. Hún skoraði tvö mörk hjá okkur í London og núna skoraði hún þrjú. Við vorum niðurlægð. En hún er stórkostlegur leikmaður og ég ber virkilega mikla virðingu fyrir henni og dái hana,“ sagði Sasaki.

Fjölmargir Japanir lýstu yfir stolti yfir frammistöðu sinna kvenna þrátt fyrir að þær hefðu verið ofurliði bornar í úrslitaleiknum.

„Þær sýndu með því að komast í úrslitaleikinn hversu öflugar þær eru og láta draumana rætast. Við í karlalandsliðinu þurfum að læra af þeim," sagði Shinji Okazaki, landsliðsmaður Japan og leikmaður Leicester á Englandi, við Kyodo News.

Forsætisráðherra Japan, Shinzo Abe, sagði að japönsku landsliðskonurnar væru löndum sínum góð fyrirmynd. „Japönsku konurnar fengu silfurverðlaun á heimsmeistaramótinu. Þær hafa komist í úrslitaleikinn tvisvar í röð og þær stóðu saman og spiluðu af krafti til leiksloka. Þær sýndu japönsku þjóðinni fordæmi með hugrekki sínu,“ skrifaði Abe á Twitter eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert