Umboðsmaðurinn rekinn og konan ráðin

Mauro Icardi og Wanda Nara.
Mauro Icardi og Wanda Nara. Af netinu

Mauro Icardi, framherji Internazionale á Ítalíu, tók afar undarlega ákvörðun á dögunum er hann ákvað að reka Abian Moreno, umboðsmann sinn til tíu ára, en Wanda Nara, eiginkona Icardi, tekur við starfinu.

Icardi, sem er 22 ára gamall, lék með unglingaliði Barcelona áður en hann gekk til liðs við Sampdoria á láni árið 2011. Hann var í kjölfarið keyptur til félagsins þar sem hann lék eitt tímabil með aðalliðinu áður en Inter keypti helmingshlut í honum. Inter keypti hinn helminginn svo ári síðar.

Hann hefur heldur betur blómstrað með Inter en hann hefur gert 38 mörk í 76 leikjum fyrir félagið og þykir afar eftirsóttur um þessar mundir. Icardi ákvað þó að taka fremur furðulega ákvörðun á dögunum er hann rak Abian Moreno, umboðsmann sinn til tíu ára.

Argentínski framherjinn ákvað að ráða eiginkonu sína, Wöndu Nara, en þau giftu sig í maí á síðasta ári. Wanda var áður gift fyrrum liðsfélaga Icardi, Maxi Lopez, og á með honum þrjú börn en þeir tveir voru bestu vinir áður en Icardi og Wanda byrjuðu að stinga saman nefjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert