„Ég er eins og gott vín“

Evra liðkar sig eftir landsliðsæfingu.
Evra liðkar sig eftir landsliðsæfingu. AFP

Franski varnarmaðurinn Patrice Evra segist vera í toppformi um þessar mundir og að hann eldist eins og gott vín. Stefnan sé sett á að vinna fleiri titla með Juventus og halda áfram að leika knattspyrnu í fremstu röð.

„Heilbrigð samkeppni er af hinu góða,“ sagði Evra í viðtali við ítalskan fjölmiðil og segir að samkeppnin laði fram það besta í sínum leik.

„Ég er eins og gott vín; verð betri með aldrinum. Ég veit að ef ég stend mig ekki nógu vel mun einn af ungu strákunum taka stöðu mína í liðinu og það heldur mér á tánum.“

Evra sagðist vera sannfærður um að hann væri ennþá fyrsti kostur í stöðu vinstri bakvarðar hjá Mancehster United ef hann léki ennþá þar. „Mér finnst ennþá erfitt að tala um það en mun gera það einn daginn. Ég kom fyrst og fremst til Ítalíu vegna fjölskyldu minnar. Ég sé alls ekki eftir því að hafa komið hingað enda hefur þetta haft jákvæð áhrif á ferilinn.“

Þrátt fyrir að vera orðinn 34 ára og hafa unnið fjölda titla segist franski landsliðsmaðurinn vera hungraður í fleiri sæta sigra. „Markmið mitt er að halda sigurgöngunni áfram með Juventus. Síðan stefni ég auðvitað á að vinna EM á næsta ári með landsliðinu, sérstaklega í ljósi þess að mótið er haldið í Frakklandi,“ sagði Evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert