Mourinho og Costa „kysstust og knúsuðust“

Mourinho var kátur eftir leikinn í gær.
Mourinho var kátur eftir leikinn í gær. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að hann og Diego Costa hafi verið fljótir að ná sáttum eftir að hafa lent í smá rifrildi í gær. Mourinho var óánægður með Costa í hálfleik í leik Chelsea gegn Maccabi Tel-Aviv í Meistaradeild Evrópu í gær.

Chelsea vann leikinn að lokum 4:0 en var einu marki yfir að loknum fyrri hálfleik og Mourinho var óánægður með spænska sóknarmanninn. „Ég var óánægður með hann og brást við því og hann svaraði mér,“ sagði Mourinho.

Portúgalski knattspyrnustjórinn sagði þó að það væri allt í góðu þeirra á milli. „Við kysstumst og knúsuðumst í hálfleik,“ bætti Mourinho við.

Chelsea er ásamt Porto frá Portúgal á toppi G-riðils. Liðin mætast í lokaumferð riðlakeppninnar 9. desember í London þar sem lærisveinum Mourinho dugar stig til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert