Neville ræðst á hæsta garðinn

Bræðurnir Phil og Gary Neville.
Bræðurnir Phil og Gary Neville. AFP

Phil Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United og Everton, mun stýra Valencia tímabundið í hið minnsta, en Nuno Espirito Santo, fyrrverandi knattspyrnustjóri liðsins, lét af störfum nýverið.

Neville var aðstoðarmaður Nuno Espirito Santo hjá Valencia og fær ansi erfitt verkefni í frumraun sinni sem knattspyrnustjóri í efstu deild, en Valencia mætir ríkjandi Spánarmeisturum og toppliðinu Barcelona um næstu helgi.

Liðin mætast á Mestalla Stadium, heimavelli Valencia, næsta laugardag og geta heimamenn komist í Evrópudeildarsæti með sigri. Valencia situr í níunda sæti deildarinnar eins og sakir standa, með nítján stig úr þrettán umferðum.

Neville er ekki algerlega blautur á bak við eyrun í þjálfun, en hann var í þjálfarateymi enska U-21 árs landsliðsins árið 2012 og aðstoðarmaður David Moyes hjá Manchester United frá maí 2013 til júlí 2014. 

Þá varð Neville einn af hluthöfum i Salford City árið 2014 og sinnti ýmsum störfum fyrir félagið þangað til hann seldi hinn hlut í félaginu í september árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert