Dvölin hjá Manchester United sorgleg

Di María fagnar marki í leik með PSG.
Di María fagnar marki í leik með PSG. AFP

Argentínumaðurinn Ángel Di María segir að dvöl sín hjá Manchester United hafi verið sorgleg reynsla. Hann sér ekki eftir því að hafa gengið til liðs við PSG í Frakklandi síðasta sumar en félagið er langefst í frönsku 1. deildinni og er komið í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Manchester United keypti Di María frá Real Madrid fyrir 59,7 milljónir punda í ágúst 2014. Honum gekk illa að aðlagast ensku úrvalsdeildinni og yfirgaf United 11 mánuðum eftir komuna þangað.

„Dvöl mín hjá Manchester United var sorgleg reynsla. Hlutirnir gengu ekki eins og ég hafði vonast til að þeir myndu gera. Í hreinskilni sagt þá man ég ekki lengur hvað gerðist og ég vil ekki muna það. Ég er ánægður þar sem ég er núna og það skiptir öllu máli,“ sagði Di María við franska blaðið L'Equipe.

PSG mætir Chelsea í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og Di María býst við erfiðum leikjum þrátt fyrir slakt gengi Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í vetur. „Flestir telja að við séum sigurstranglegri. Við lítum ekki þannig á hlutina; þetta er Chelsea. Þeir eru með frábært lið og leikmenn sem öll bestu lið Evrópu myndu vilja hafa í sínum röðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert