Kína gæti keypt allar deildir Evrópu

Hagfræðingurinn Arsene Wenger segir efnahagslega yfirburði Kína vera að koma …
Hagfræðingurinn Arsene Wenger segir efnahagslega yfirburði Kína vera að koma í ljós. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, telur að evrópsk knattspyrnufélög ættu að hafa áhyggjur af þeim gríðarlegu fjármunum sem kínversk lið virðast ráða yfir. Á síðustu vikum hafa þrír leikmenn verið keyptir frá evrópskum stórliðum til Kína, fyrir samtals 94 milljónir punda.

Þrátt fyrir að félagaskiptaglugginn í Evrópu sé lokaður gætu fleiri leikmenn bæst í hópinn á næstu dögum en lokað verður fyrir félagaskipti í Kína 26. febrúar. 

„Það lítur út fyrir að Kína hafi fjárhagslegt bolmagn til að færa allar deildir Evrópu til Kína,“ sagði Wenger á blaðamannafundi í dag þegar hann var spurður að því hvort hann hefði áhyggjur af þróun mála. „Við vitum að þetta er einfaldlega afleiðing efnahagslegra yfirburða þeirra,“ bætti hann við.

Sjálfur segir Wenger gera ráð fyrir því að leikmenn verði keyptir til Kína á hærri upphæðir á næsta ári. „Ég veit ekki hversu djúp löngun þeirra er. Við skulum muna að svipað átti sér stað í Japan fyrir nokkrum árum síðan og það hægði á þróuninni þar í landi. Leikmenn verða eflaust keyptir dýrum dómum í sumar og ég er viss um að fyrstu 100 milljón punda félagaskiptin eru handan við hornið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert