Byrjaðir að skrifa minningargreinar

Gary Neville á fréttamannafundi.
Gary Neville á fréttamannafundi. AFP

Gary Neville, knattspyrnustjóri Valencia á Spáni, segir að sumir séu þegar byrjaðir að skrifa um sig minningargreinar þó hann hafi aðeins verið sex vikur í starfi.

Valencia hefur enn ekki fagnað sigri í níu leikjum síðan Neville tók við liðinu. Í síðustu viku steinlá það 7:0 fyrir Barcelona í fyrri undanúrslitaleik bikarkeppninnar og um helgina mátti Valencia sætta sig við ósigur gegn Real Betis, 1:0, í 1. deildinni.

„Áður en ég kom sagði ég að eftir fimm mánuði í starfi yrði ég dæmdur af verkum mínum. Það er hinsvegar búið að dæma mig strax eftir sex vikur og sumir eru byrjaðir að skrifa minningargreinar," sagði Neville, og kvaðst ekki hræddur um að dragast inní fallbaráttu þó Valencia sé nú aðeins fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

„Við höfum klárlega verið betri en sum liðin sem við höfum mætt. Í tveimur síðustu leikjum í deildinni verðskulduðum við ekki að tapa, en staðreyndin er sú að við töpuðum þeim báðum og ég veit hvað það kostar að vinnna ekki leiki. Það eru úrslitin sem skipta öllu máli," sagði Neville við BBC.

„Þetta snertir okkur alla en hlutirnir falla ekki með okkur sem stendur. Ég mun halda mínu striki og hef áfram fulla trú á verkefninu. Ég hef rætt við eigendur félagsins en það er trúnaðarmál. Við verðum að snúa blaðinu við strax, ég veit það. Liðið er komið í miklu betra  stand og er betur skipulagt en þegar ég tók við því. Þá var það út um allt," sagði Neville.

Valencia er fyrsta félagið sem Neville stjórnar. Hann lagði skóna á hilluna árið 2011 eftir tuttugu ára feril sem leikmaður Manchester United og 85 landsleiki fyrir England. Hann hefur verið aðstoðarþjálfari enska landsliðsins frá 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert